Þessi grein er skrifuð vorið 2023.
Á nýliðnum árum og áratugum hafa hugmyndafræðileg áhrif frá nýaldarhreyfingum sem kenna sig við ný-heiðni (e. neo paganism) og aríaisma skotið rótum í rússnesku samfélagi. Í þessum hugmyndaheimi birtist meðal annars náttúrudýrkun, þjóðernishyggja, valdboðshyggja og kynþáttafordómar sem einkenna hægri öfgahópa víða um heim.
Það sem hinsvegar vekur sérstaka athygli hvað varðar Rússland er hversu vel mýtum og kenningum sem eiga að tengjast uppruna þjóðarinnar og for-kristnum hefðum hefur verið tekið af almenningi, og hversu áberandi mikil áhrif þessar hugmyndir hafa haft á samfélagið á stuttum tíma.

Hvað er ný-heiðni og hver er aríska goðsögnin?
Samkvæmt breska mannfræðingnum Brian Morris hefur ný-heiðni verið lýst sem nýjum trúarbrögðum sem komu fram á sjónarsviðið undir lok tuttugustu aldar og snúast í grunninn um náttúrudýrkun (tengingu manns við náttúru) og að endurvekja fornar athafnir og innleiða þær í nútímann.
Morris skrifar að í Bretlandi sé talið að um 50.000 manns aðhyllist ný-heiðin trúarbrögð. Hann segir að ný-heiðni sé meðal þeirra trúarbragða sem breiðist hvað hraðast út á vesturlöndum og vill meina að fræðimenn hafi ekki veitt þeirri staðreynd nægilega athygli. Hann ályktar að skýringuna á áhugaleysinu megi setja í samhengi við að ný-heiðni sé talin til nýaldarhreyfinga, og þar á hann væntanlega við að félagsleg áhrif slíkra hreyfinga séu ekki talin nægilega skýr eða marktæk eða eins og hann orðar það: „simply seen as a part of the New Age culture“.
Sú tegund, eða það form, af ný-heiðni sem hefur átt vinsældum að fagna meðal andlega leitandi Rússa gengur út á endurvekja og iðka for-kristna slavneska siði með ýmsum ritúölum og aðferðum, tengjast náttúrunni og þjóðlegum uppruna og öðlast í gegn um það meiri lífsfyllingu, skýrari sjálfsmynd og sterkari tengingu við land og þjóð. En ólíkt t.a.m ný-heiðnum hreyfingum í Bretlandi og á Íslandi þá leggja margir rússneskir ný-heiðingjar ríka áherslu á að tengja uppruna sinn við hina svokölluðu aríaþjóð sem nasistar í Þýskalandi höfðu mikið dálæti á og með því tvinnast saman trúarbrögð og kynþátta- og þjóðernishyggja.
Hvað varðar goðsögnina um aría þá gengur hún í stuttu máli út á að til forna hafi verið uppi kynstofn indóevrópubúa sem hafi skarað fram úr öllum öðrum kynþáttum þegar kom að arfgengi og menningu. Svokallaðir ofurmenn (Übermensch). Niðjar þeirra hefðu í gegn um tímans rás ferðast til norðurs og tekið sér bólfestu, meðal annars á Norðurlöndum og í Þýskalandi en ný-heiðnir Rússar vilja meina að flestir beinir afkomendur aría séu í Rússlandi.
Hugmyndin um að ákveðin þjóð (eða þjóðir) sé komin af aríum, og hafi þar af leiðandi mikla yfirburði fram yfir aðrar, er ekki ný af nálinni eins og sagan ber vitni um enda stýrðust aðgerðir Hitlers, Heinrik Himmler og annarra liðsmanna nasistaflokksins að stóru leiti af þessari sannfæringu.Himmler var upptekin af kenningum Darwins um stigveldisskipan lífvera og að efla þyrfti tengsl milli manna og náttúru (Naturphilosophie) en hann áleit sem svo að Þjóðverjar, sem beinir afkomendur aría, væru á allra efsta stigi í náttúruvalinu.
Hann fylgdi sannfæringu sinni um nauðsyn þess að „efla hinn aríska kynstofn“ eftir með því að hrinda af stað aðgerðum sem snerust m.a. um að útrýma gyðingum, og öðru fólki sem þeir töldu hafa skaðleg áhrif á vestræna menningu, og samhliða því fjölga „aríska kynstofninum“ eftir kynbótaleiðum. Til að renna „vísindalegum“ stoðum undir kenningar um þennan uppruna Þjóðverja lét Himmler setja á laggirnar sérstaka ríkisstofnun sem kölluð var Ahnenerebe, (e. Ancestral Heritage Foundation) og þangað voru ráðnir vísindamenn úr öllum áttum, t.d. sagnfræðingar, mannfræðingar og fornleifafræðingar, sem fóru í langa leiðangra í leit að vísindalegum gögnum, meðal annars til Tíbet, Íran og Norðurlanda. Stofnunin var starfrækt frá 1935 til 1945 en eins og gera má ráð fyrir skiluðu „rannsóknirnar“ engum marktækum árangri enda helgaði tilgangurinn meðalið sem í þessu tilviki var baneitraður.
Morris skrifar að mikið hafi verið ritað um áhrif launhelga og dulspeki á hugmyndafræði þýska nasistaflokksins og sérstaklega tilgreinir hann áhrif austurríska rithöfundarins og dulspekingsins Guido Von List en sá var mikill áhugamaður um aríanisma og for-kristin trúarbrögð og talaði meðal annars fyrir endurvakningu heiðinna trúarbragða (e. wotanism) sem hann vildi m.a. meina að skifað væri um í Eddukvæðum og ættu upptök sín í Norrænni goðafræði. Morris skrifar að þessar, og fleiri hugmyndir Von List hafi haft geysilega mikil áhrif á rómantíska þjóðernisstefnu nasistaflokksins og bendir ennfremur á að það hafi verið nasistarnir sem komu hugtakinu ný-heiðni inn í tungumálið:
„This was an important aspect of Volkisch ideology, embraced by many National Socialists. Indeed, it was the Nazis who coined the term ‘Neopagan“.
Franski sagn-, félags og stjórnmálafræðingurinn Marléne Laruelle gerir útbreiðslu ný-heiðni og arískra goðsagna í Rússlandi nútímans að umfjöllunarefni sínu í greinni Alternative identity, alternative religion? Neo-paganism and the Aryan myth in contemporary Russia sem var birt á vegum mið-Asíu og Kákasus stofnunar (SAIS) John Hopkins háskólans árið 2008. Í greininni skoðar hún tengingu ný-heiðinna hreyfinga, og boðbera aríanisma, við opinberar stofnanir og stjórnvöld í Rússlandi og rekur tilurð og uppruna hreyfinganna þar í landi, ásamt því að varpa ljósi á með hvaða hætti kenningarnar og goðsagnirnar (sem ýmist hafa orðið til eða rúmast innan þeirra) birtast í nútímamenningu, t.a.m í umræðu, bóka og blaðaútgáfu og í opinberri orðræðu stjórnmálaflokka og yfirvalda.
Strax í annari málsgrein bendir Laruelle á áberandi samnefnara ný-heiðinna trúarhreyfinga en það er fyrirbæri, eða hugtak, sem kallast tilbúnar hefðir (e.invented tradition). Um slíkar hefðir er fjallað með ýtarlegum hætti í bókinni The invention of tradition sem kom fyrst út á vegum Cambridge University Press árið 1983 og var ritstýrt af Eric Hobsbawm og Terence Ranger. Í stuttu máli kemur þar fram að tilbúnar hefðir fylgi ákveðnum formúlum og að þær verði til á tímum félagslegra, pólitískra eða menningarlegra umbreytinga; þeim sé ætlað að efla stöðugleika, sjálfsmynd og samheldni þjóða og/eða hópa; framkalla sameiginlegt minni; og stuðla að ákveðinni hugmyndafræði og/eða efla sérstaka hagsmuni.
Þá er útskýrt að slíkar hefðir séu búnar til af t.a.m stjórnmálamönnum, trúarleiðtogum, menningarsamfélögum og einstaklingum og að þær séu ekki endilega alltaf af neikvæðum toga. Í inngangsorðum (Haubswam og Ranger, 2012, bls 1) lýsa höfundar tilbúnum hefðum sem samfélagsháttum sem stýrast af bæði augljósum og óskráðum reglum, og ritúölum og táknum, sem með endurtekinni birtingu og áminningu sé ætlað að innræta ákveðin gildi og hegðunarviðmið sem skapi samfellu við fortíðina. Sem dæmi um „samfellu við fortíðina“ nefna þeir ákvörðun sem tekin var af breskum yfirvöldum um að byggja skyldi breska þinghúsið í upprunalegum gotneskum stíl eftir sprengingar í síðari heimstyrjöld þrátt fyrir að langt væri komið inn í miðja tuttugustu öld og hvað varðar hegðunarviðmið vísar þeir t.d. í skátahreyfingu Badens Powell og fjöldafundi nasistana í Nuremberg þar sem notkun tákna og endurtekin innræting æskilegrar hegðunar og gilda var ein af aðferðum þeirra til að tryggja sér völd og yfirráð.
Til að auðvelda lesendum enn frekar skilninginn á hugtakinu þá skipta þeir tilbúnum hefðum upp í þrjá flokka og eru þær eftirfarandi:
- tilbúnar hefðir sem koma á fót, eða tákna félagslega samheldni eða aðild að hópum, ýmist raunverulegum eða tilbúnum
- tilbúnar hefðir sem réttlæta og styrkja stofnanir, stöðu og valdatengsl (t.d. bresku krúnuna) og
- tilbúnar hefðir sem hafa þann megintilgang að stuðla að félagsmótun með innrætingu skoðana, gilda og hegðunar
Tilbúnar hefðir og vinsældir nýaldarhreyfinga upp úr falli Sovétríkjanna
Með tilliti til kenninga Hobsbawm og Ranger blasir við hvernig í umbreytingarskeiðinu sem tók við eftir fall Sovétríkjanna hafi myndast einstaklega frjór jarðvegur fyrir tilbúnar hefðir, þar sem ýmist ný og gömul gildi gátu skotið rótum og sprottið upp á fordæmalausum hraða.
Í þeirri gagngeru endursköpun sem þá átti sér stað tók m.a að bera á aukinni andstöðu við rétttrúnaðarkirkjuna, og kristna trú almennt, og samhliða nutu nýaldarhreyfingar og nýaldarkenningar vaxandi vinsælda enda áhersla á sjálfræði, einstaklingsmiðaða trúarupplifun og andstaða við vald kirkjunnar eitt af einkennum nýaldarhugmynda.
Í nýaldarflóru Rússlands kennir ýmissa grasa og innan nýaldarhreyfinga og hópa ægir stundum hugmyndum og kenningum saman svo úr verða framandi uppskriftir. Í sumum ný-heiðnum hreyfingum eru m.a. kunnugleg stef úr jógaheimspeki, í öðrum trúir fólk á fljúgandi furðuhluti og æfir sig í hugsanalestri en í þeim þjóðernissinnuðu nýaldarhreyfingum sem kenna sig sérstaklega við „slavneskan vedisma“ og heiðni, (ekki ný), eru þjóðerinssinnaðar kenningar um aríaisma og teningar við valdamikla íhaldssinnaða stjórmálaflokka svo áberandi og á slíkum skala, að Laruelle telur hættu stafa af.
Í greinarhlutanum þar sem hún rekur sérstaklega sögu tilurðar ný-heiðinna hreyfinga í Rússlandi, og tengingar þeirra við stjórnmálaöfl, nefir hún einnig Guido Von List og hvernig kenningar og hugmyndir hans höfðu áhrif á „Svörtu SS regluna“ en sú regla var ofstopafull og öfgasinnuð nýaldarhreyfing sem myndaðist í kring um 1970, snerist um launhelgar og okkúltisma og boðaði fasisma, kynþáttafordóma og hatur. Áhrif frá þeirri hreyfingu lifa enn góðu lífi í gegn um orðræðu og bækur hins vinsæla þjóðernissinnaða rithöfundar Alexander Dugin (f. 1962) sem ungur gerðist liðsmaður „sveitanna“ en í dag er hann þekktur sem „heili Pútíns“ og talin hugmyndasmiðurinn á bak við margar aðgerðir forsetans, t.a.m hernaðaragerðirnar í Úkraínu.
Eftir fall Sovétríkjanna hafa áhrif arísku goðsagnarinnar og kreddur ný-heiðinna hreyfinga borist inn í rússneskt nútíma samfélag eftir ýmsum leiðum og með endurtekinni birtingu og áminningu hafa langsóttar kennisetningar innrætt gildi sem sem hafa skapað ímyndaða samfellu við fortíðina. Áhrifavaldar sem tengjast ný-heiðnum þjóðernissinnuðum hreyfingum hafa til dæmis gefið út ótal blöð og bækur sem almenningur les í þeirri trú að um marktæk sagnfræðirit sem ætluð eru almenningi sé að ræða.
Í þeim eru frásagnir af glæstri fortíð sem ætlað er að sanna og staðfesta arískan uppruna þjóðarinnar og fólk trúir innihaldinu eins og nýju neti og áttar sig ekki á það er að mestu skáldskapur og/eða útúrsnúningur úr allskonar heimildum. Höfundar bókanna, (sem margir tengjast hnattrænum hreyfingum þjóðerinssinna), gefa sig út fyrir að vera fræðimenn en yfirleitt séu þeir menntaðir í raunvísindum eða verkfræði og hafa enga sértæka þekkingu úr heimi sagnfræði- og félagsvísinda skrifar Laruelle.
Líkt og Morris kemur inn á þá er fjöldi ný-heiðinna hreyfinga að öllum líkindum stórkostlega vanmetin og Laruelle er sama sinnis. Hún skrifar að erfitt sé að áætla heildartölu ný-heiðinna hreyfinga í Rússlandi en eins og fyrr segir eru þær ekki skilgreindar sem hefðbundnar trúarhreyfingar, hvorki opinberlega né af aðilunum sem þeim tilheyra, enda snúast þær í eðli sínu um einstaklinginn og andstöðu við opinbert trúarvald.
Að auki spilar það inn í að í Rússlandi gilda harðar reglur um skráningu á trúfélögum og kjósa iðkendur og forsprakkar hreyfinganna því heldur að skilgreina þær sem menningarhópa. Af þessum orsökum voru aðeins fjörtíu ný-heiðnar hreyfingar skráðar hjá dómsmálaráðuneyti Rússlands árið 2003 en Laruelle ályktar að líklega hafi þær skipt hundruðum.
Niðurlag og ályktun:
Eftir að hafa skrifað þessa samantekt og öðlast skýrari mynd af hugmyndafræðilegum tengingum milli nýaldarhreyfinga og stjórnmála bæði fyrr og nú, ásamt því að öðlast dýpri innsýn inn í hvernig hættulegar stefnur á borð við þjóðernishyggju hafa siglt undir radarinn í skjóli nýrra trúarbragða, þá vaknaði hjá mér spurning um hvort ekki bæri að taka aðrar og fleiri „sérviskulegar“ nýaldarkenningar og áhrif þeirra á opinberar stofnanir til rannsóknar.
Eins og Morris bendir á þá lítur samfélagið almennt ekki á nýaldarhreyfingar sem áhrifamiklar félagsfræðilegar breytur sem geti haft bein áhrif á valdastofnanir en í ljósi staðreyndanna bendir allt til þess að réttast sé að taka þá afstöðu til alvarlegrar endurskoðunar enda held ég að dæmin séu þegar byrjuð að sanna sig og hér vil ég nefna eitt:
Á nýliðnum árum hefur umræða um hugvíkkandi efni í lækningarskyni, og möguleg innleiðing notkunar þeirra í opinberar heilbrigðisstofnanir verið gríðarlega áberandi, en í allri þeirri umræðu hefur fyrirbærið ný-shamanisma aldrei borið á góma. Hinsvegar hefur mikið verið skrifað og rætt um hvernig geðlæknar notuðu þessi efni við meðhöndlun sjúklinga frá sirka 1950 þar til þau voru, af pólitískum ástæðum, bönnuð í kring um 1970. Með öðrum orðum þá hafa lagalegar, stjórnmálafræðilegar og læknisfræðilegar hliðar þessa máls verið skoðaðar og ræddar í þaula en kastljósinu hefur hingað til ekki verið beint að mannfræðilegu hliðinni.
Árið 1951, á nákvæmlega sama tíma og geðlæknar byrjuðu fyrst að nota hugvíkkandi efni í lækningaskyni, kom út bókin Shamanism : Archaic techniques of ecstasy eftir sagnfræðinginn Mircea Eliade en með tilkomu hennar kviknaði neistinn að því sem leiddi síðar til útbreiðslu hugmynda um shamanisma sem nálgun fyrir vesturlandabúa til heilunar og betra lífs.
Árið 1968 kom svo út bókin The Teachings of Don Juan: A Yaqui Way of Knowledge eftir mannfræðinemann Carlos Castaneda en í henni segir höfundurinn frá reynslu sinni af andlegri upplifun undir handleiðslu shamans og lækningarmætti hugvíkkandi efna (sem á þeim tímapunkti höfðu verið notuð af geðlæknum í tuttugu ár).
Bók Castaneda sló í gegn og út frá henni mynduðust margir nýaldarhópar sem fögnuðu boðskapnum og reyndu að tileinka sér aðferðirnar. Tólf árum síðar, eða árið 1980, birtist svo önnur bók sem átti eftir að hafa mikil áhrif en sú heitir The Way of the Shaman og er eftir mannfræðinginn Michael Harner. Í báðum þessum bókum, og einnig í bók Eliade, birtist sú kenning að shamanismi sé trúarleg eða andleg nálgun sem sé óháð landfræðilegum staðsetningum (Harner kallaði það core shamanism) og í því samhengi urðu áhrif úr bókum Harner og Castaneda að óbeinum boðskap sem velmegandi og nýaldarsinnaðir vesturlandabúar hófu að tileinka sér.
Á liðnum áratug hefur útbreiðsla core shamanism, eða neo-shamaism, verið geysilega hröð og talið er að vinsældirnar orsakist af sömu ástæðu og þeirri sem hefur gert ný-heiðnar hreyfingar jafn margar og fjölmennar og raun ber vitni – en ástæða þessi er sú að óuppfylltum þörfum nútímafólks fyrir tengingu við náttúruna er mætt í samkomum og með athöfnum þessara hreyfinga, sem ganga jú út á náttúrudýrkun og byggja á hugmyndum og einstaklingsmiðuðum gildum sem falla utan við ramma hefðbundinna trúarbragða.
Í ljósi þess að mannfræði er sú fræðigrein sem býr yfir mestri þekkingu þegar kemur að miðlun og aðlögun menningarhefða milli ólíkra samfélaga, er sennilegt (og óskandi) að mikilvægi fræðasviðsins og eftirspurn eftir mannfræðilegri þekkingu, muni færast í vöxt í takt við merkjanleg áhrif dreifihyggju og móttækileika opinberra stofnana fyrir „framandi áhrifum“ enda verður menningarlegur sveigjanleiki nauðsyn en ekki valkostur ef opinberar stofnanir vilja tryggja stöðu sína og áhrifavald í nútímasamfélagi.
Heimildir
- Eliade, Mircea, (1964). Shamanism: Arhcaic techniques of ecstacy. Routledge.
- Hobsbawm, E., & Ranger, T. (2012). The Invention of Tradition (Vol. 15). Cambridge University Press. https://doi.org/10.1017/CBO9781107295636
- Kurlander, E. (2015). Central European History; Cambridge Vol. 48, Iss. 4 (Dec 2015): 498-522. DOI:10.1017/S0008938915000898
- Laruelle, Marléne. (2008). Alternative identity, alternative religion? Neo-paganism and the Aryan myth in contemporary Russia. Nations and Nationalism, 14(2), 283– 301. https://doi.org/10.1111/j.1469-8129.2008.00329.
- Morris, Brian (2006). Religion and Anthropology: A Critical Introduction. Cambridge University Press.
- Trigger. (2006). Heather Pringle 2006. The Master Plan: Himmler’s Scholars and the Holocaust. New York: Hyperion. Bulletin of the History of Archaeology, 16(2), 45–46. https://doi.org/10.5334/bha.16206
- Shlapentokh, D. (2018). The Time of Troubles in Alexander Dugin’s Narrative. European Review, 27(1), 143-157. doi:10.1017/S1062798718000650 https://www.cambridge.org/core/journals/european-review/article/time-of- troubles-in-alexander-dugins-narrative
Skildu eftir svar