Anthropocentrism: Mannskepnan í miðjunni

Ég sagði við sjálfan mig: Þetta er gert mannanna vegna til þess að Guð geti reynt þá og þeir sjái að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur. Því að örlög manns og örlög skepnu eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn og allt hefur sama andann og yfirburði hefur maðurinn enga fram yfir skepnuna því að allt er hégómi. Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið og allt hverfur aftur til moldar. Hver veit hvort andi mannanna fer upp á við eða andi skepnunnar niður á við til jarðar? 

Biblían. Predikarinn 3. Kafli. 

Anthropocentrism er hugmyndafræði sem byggir á því að maðurinn (fyrst og fremst karlmaðurinn) sé miðpunktur tilverunnar og vitsmunalega æðri öllum öðrum skepnum.

Af skilgreiningunni leiðir að náttúran verður sjálfkrafa að auðlind sem maðurinn telur sig eiga skýlausan rétt á að nýta sér til lífsviðurværis, en til þess þarf hann að hafa full yfirráð yfir löndum og landssvæðum og öllum auðlindum sem þeim tilheyra.

Þessi grein fjallar meðal annars um með hvaða hætti maðurinn hefur skipað sjálfum sér þetta toppsæti og hvernig samanburður við aðrar skepnur og tungumálið hefur verið notað í þeim tilgangi að réttlæta sjálfsskipað mikilvægi og drottnunarhlutverk homo sapiens.

Hugmyndin um Guð

Uppruna hugmyndafræðinnar er erfitt að rekja til rótar því hún hefur fylgt manninum um aldir alda. Í bókinni Anthropocentrism and it‘s discontents nefnir höfundurinn Gary Steiner að gríski heimsspekingurinn Xenophanes, sem var uppi um 600 árum fyrir Krist, hefði skrifað; að ef hestar, nautgripir og ljón hefðu hendur sem gætu teiknað og starfað með sama hætti og mennirnir, þá hefðu hestar teiknað guði sem hesta, guðir nautgripa hefðu verið teiknaðir sem nautgripir og svo framvegis.

Síðar birtast hugmyndir um anthropocentrisma til dæmis í verkum grískra heimspekinga á borð við Plató og Aristóteles og einnig í kristnum miðaldafræðum um stigveldisskipan lífsins The Great Chain of Being – þar sem óæðri (og um leið verstu) tilverustigin þrífat á botninum en eftir því sem leiðin liggur hærra upp verða lífverurnar sífellt göfugri.

The Great Chain of Being

Mynd 1: Diego Valadés „The great chain of being“ 1579. (Getty research institude) 

Skv. bandaríska listsagnfræðingnum Lauren Kilroy-Ewbank er koparristan hér að ofan fyrsta verkið eftir amerískan höfund sem birtist á prenti. Titill bókarinnar er Rhetorica Christiania en hún var gefin út árið 1579 í Peruga á Ítalíu . Höfundurinn hét Diego de Valadés og var fæddur í Mexíkó. Faðir hans var spænskur landvinningamaður (e. conquistador) en móðir hans af mexíkóskum frumbyggjaættum. De Valadés tilheyrði reglu Fransisku munka en innihald bókarinnar fjallar einmitt um kristniboðun og „siðmenntun“ frumbyggja í þeirri heimsálfu sem nú er Suður-Ameríka.  

Í koparristu De Valadés birtist stigveldisskipanin þannig að í miðju eldhafi neðst á botninum situr kvenvera með sundurglennta fætur, horn og leðurblökuvængi. Í kring um hana eru púkar með horn, uppteknir við að pynta manneskjur. Í næsta lagi fyrir ofan kemur náttúran með trjám og gróðri, þar fyrir ofan er lag af spendýrum og furðudýrum (dreki og einhyrningur), því næst koma sjávardýr, fiskar og fuglar, og því næst kristniboðar, munkar, naktir frumbyggjar og fleiri mannverur og fyrir miðju liggur nakin móðir. Ofar mannkyninu sitja englar og enn ofar má sjá stóra erkiengla, umlukta skýjabólstrum sem tákna návist englanna við andann. Allra hæst trónir drottinn í mynd karlmanns, með skegg og kórónu, sjálfa keðju lífsins í vinstri hönd og krosshnött í þeirri hægri en við fætur hans hvílir mannssonurinn. Meðfram hægri hlið myndarinnar sjást englar hrapa niður til helvítis en eftir því sem nær dregur botninum breytast vængir þeirra úr tignarlegum fuglsvængjum í afkáranlega leðurblöku og skordýravængi (hvorutveggja dýrategundir sem menn eiga til að óttast).  

Darwin og sköpunarverkið 

Samkvæmt fyrstu bók Móse í Biblíunni var lífríki jarðar sköpunarverk Drottins sem fullkláraðist á sjö dögum en eins og flestir vita bylti Charles Darwin þessari heimsmynd árið 1859 með kenningum sínum um að menn væru í raun komnir af prímötum og kenningar þær liggja enn til grundvallar (e. paradigm) í náttúruvísindum.  

Í hugmyndum Darwins um náttúruval, og skýringum hans á því hvers vegna sumum stofnum vegnar betur í lífsbaráttunni en öðrum, birtist einnig uppröðun í stigveldi sem setur mannskepnuna í efsta þrep og „óæðri skepnur“ (e. lower species) neðar . Stigveldisskipanin byggir þó ekki á möguleikum ákveðinna vera til að ná sambandi við Drottinn heldur hæfileikanum til að afla sér fæðu, fjölga sér og lifa sem lengst. Darwin tók andann fyrir í öðru verki þrettán árum síðar en það ber heitið The expressions of the emotions in man and animals.

Í því fjallar hann um birtingarmyndir tilfinninga (e. emotional state) í hegðun og tjáningu manna og annarra spendýra. Niðurstöðurnar sýndu að tilfinningalíf okkar væri á margan hátt svipað og hjá öðrum skepnum og að við tjáðum þær með mjög sambærilegum hætti (t.d. að sýna tennur í reiði) en sex tilfinningaþættir þóttu honum sérlega áberandi :  

  1. gleði  
  1. sorg 
  1. ótti 
  1. reiði 
  1. að verða hissa 
  1. finna viðbjóð  

Þá kom hann einnig auga á áhugaverða sameiginlega líffræðilega þætti sem tengdu líkama og tilfinningar. Til dæmis áhrif áfalla og álags á taugakerfið sem sjást m.a. á því að hár manna og ýmissa annarra skepna gránar við álag og þá gefa bæði dýr og menn frá sér sérstök hljóð þegar þau upplifa skelfingu.

Antropocentrismi og feminismi 

Í tíunda boðorði Biblíunar stendur „Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á“. Í þessari setningu er tvennt áberandi augljóst: Í fyrsta lagi er orðunum beint til karlmanns og í öðru lagi er búfénaði, konum og þrælum skipaður sami sess þannig að eiginkona, dýr og þrælar af báðum kynjum eru „eignir“ karlmannsins sem hann hefur til þjónustu við sig. Þetta kemur einnig fram í fyrsta kafla sköpunarsögunnar í Biblíunni en þar skipar drottinn Adam og Evu m.a. að vera frjósöm og drottna yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni en seinna, þegar Eva fellur fyrir freistingum djöfulsins, refsar drottinn henni m.a. með því að segja henni að eftirleiðis muni maðurinn hennar drottna yfir henni:

„Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér“.  

Í greinni Is female to male as nature is to culture (1974) leitast mannfræðingurinn Sherry Ortner við að svara þeirri stóru spurningu hvers vegna konum hafi verið skipaður annars flokks sess í nær öllum menningarsamfélögum. Í greininni skoðar hún viðfangsefnið út frá tvíhyggju og aðgreiningu menningar frá náttúru þar sem konur eru álitnar nær náttúrunni en karlar, og karlarnir nær menningu en konur.

Þessu beina vistfræðifeministar (e. ecofeminist) einnig sjónum sínum að en helsta viðfangsefni þeirra er að varpa ljósi á hvernig ofríki gagnvart bæði konum og náttúru virðist félagslega samþykkt. „Ecofeminists examine the effect of gender categories in order to demonstrate the ways in which social norms exert unjust dominance over women and nature“. Samkvæmt þessu er anthropocentrismi þá ekki einungis hugmyndafræði sem setur mannskepnuna á stall ofar náttúru og öðrum skepnum heldur hafa félagsleg viðmið, skrifuð og sköpuð af karlmönnum, undirbyggt þá viðurkenningu að karlmenn sem slíkir haldi lífsins keðju á lofti. 

Skepnumenn og mannskepnur 


Í öllum samfélögum heims eru til sögur af verum sem eru samruni manna og annarra skepna eða samrunaskepnur (e.hybrid). Dæmi um slíka skepnu er gríski guðinn Pan sem var geithafur fyrir neðan mitti en maður fyrir ofan mitti. Fyrir Grikkjum var hann guð villtrar náttúru, skóga, frjósemi o.fl. en fyrir kirkjunnar feðrum var hann táknmynd fyrir „dýrslegar“ hvatir, drykkju og saurlifnað. Það er því varla tilviljun að Pan ber sama útlit og önnur alþekkt vera sem gengur undir heitinu djöfullinn og stendur fyrir flest það sem sannkristið fólk á að leggja sig fram um að forðast

Í bæði Pan og djöflinum birtist aðskilnaður holds og huga, manns og náttúru og himins og jarðar með táknrænum hætti. Maðurinn (andi, vitsmunir og sjálfsvitund) eru í mannslíkamanum fyrir ofan mitti (búkur, handleggir og höfuð) en hið jarðneska, frumstæða eða „dýrslega“ er geitarskrokkurinn fyrir neðan mitti. Í viðleitni sinni til að bæla niður „dýrslegar“ hvatir (jörð/neðan mittis) og komast nær guði (himinn/höfuð) lögðu kirkjunnar feður áherslu á að neita sér um kynlíf og aðrar líkamlegar lystisemdir eða þarfir. Þannig skýrist hvernig villtur skógarguð með klaufir og horn eins og geithafur varð að táknmynd freistinga holdsins og þar með alls hins illa á jörðu, en samrunaverur með líkama manna en stóra fuglsvængi voru hinar allra helgustu enda áttu þær greiða leið upp í himinn

Hin „villtu“

Eins og áður segir tekur maðurinn sér réttindi til að ráðskast með, drepa og beygja aðrar skepnur undir sig með því að skipa sjálfum sér í efsta sæti. Þetta er t.d. gert við búfénað og öll önnur dýr sem eru ræktuð og leidd til slátrunar; sirkusdýr og dýr sem eru höfð til sýnis í dýragörðum. Kjötætur sem keppa við manninn um fæðu og eru erfiðir andstæðingar eru skilgreind sem rándýr en í orðinu „rán“ felst einmitt að það er verið að ræna einhverju. Það sama er uppi á teningnum með orðið meindýr en í því felst að dýrið veldur meini og verður því réttdræpt. Í orðunum meindýr og rándýr birtist anthropocentrismi þannig með áberandi hætti.

Sama er uppi á teningnum með samrunaskepnur þar sem þær allra hryllilegustu eru samblanda af mönnum og villtum dýrum sem leggjast á beitilönd og búfénað. Þar má t.d. nefna hamskiptinga á borð við varúlfa og vampírur sem breyta sér í leðurblökur áður en þær leggjast á menn og sjúga úr þeim blóð. Konur sem hafa það orð á sér að vera „villtar“ þykja óæskilegir makar en í orðinu felst að þær láta illa að stjórn (karlmanna). Í þessu samhengi er sjaldan talað um „villta karlmenn“ sem erfitt er að fá til að hlýða og gera að góðum eiginmönnum þó öðru gildi um „villimenn“ (e.savage) en slíkir menn teljast ógna  „siðmenningu“ og æskilegum gildum.

Á nýlendutímanum var orðið „villimenn“ notað um frumbyggja sem nýlenduherrar töldu nauðsynlegt að kristna eða siðmennta en á okkar tímum hefur t.a.m andstæðingum í stríði verið lýst með þessu orði. 

Tengingar við dýr

Líf og menning mannskepnunnar er, og hefur alltaf verið, algerlega samofin lífi annarra skepna en refhvörfin (e.oxymoron) og mótsagnirnar sem ríkja í samlífi og tilvistarsambandi manna og dýra eru allt umlykjandi.

Við virðumst elska dýr og fyrirlíta þau á víxl og við mismunum þeim með ýmsum hætti. Til dæmis vegna þess að okkur finnast sum falleg en ekki önnur, sum hafa mikilvæga menningarlega þýðingu (t.d. „þjóðarfugl“ eins og lóan) og ber því að vernda, sum eru í útrýmingarhættu af einhverjum völdum og aðrar skepnur þykja svo margar að reynt er að útrýma þeim ýmist leynt eða ljóst. Í sumum löndum borðar fólk hunda og ketti þó slíkt tíðkist ekki á Vesturlöndum. Mögulega stafar það af því að hundar og kettir eru okkar algengustu gæludýr og jafnframt samherjar í að verja híbýli, búfénað og beitilönd.

Þó þessi ályktun sé auðveld er ekki endilega auðvelt að skilja þann mótsagnarkennda eiginleika mannskepnunnar að geta myndað vináttu við aðra skepnu, en drepa hana svo og leggja sér til munns, – jafnvel eftir áralanga vináttu. Til dæmis bændur sem sinna húsdýrum af alúð, gefa þeim nöfn, kalla til þeirra og klappa þeim en slátra svo eða drepa þegar tími þykir komin til þess. Líklega var þetta þó algengara áður enda hafa hefðbundin bændastörf iðnvæðst á síðustu áratugum og tengingin við skepnurnar þannig minnkað.  

Þó húsdýrin séu manninum afar mikilvæg þykir sjaldnast jákvætt að líkja mönnum beinlínis við þau. Til dæmis þykir ekki fallegt að uppnefna karlmann gölt, hana, rakka eða svín eða bera konu saman við gyltu, meri, belju, tík eða rollu. Með því að draga fram einkenni dýranna sem þykja ókostir í fari manna (t.d. lauslæti, sóðaskapur, digurt holdafar og klunnaskapur) fá sjálf dýraheitin niðrandi merkingu en þegar samanburðurinn er jákvæður (t.d. foli eða naut) þá breytir það hins vegar litlu um stöðu skepnanna í stigveldisskipan mannanna. Það er að segja – folinn verður ekki æðri manninum þó samlíkingin við eiginleika hans sé jákvæð. 

Í barnabókum og teiknimyndum nútímans er varla til sú lífvera sem ekki hefur verið manngerð (e. anthropomorphism) með því að gera hana að samrunaveru sem hagar sér eins og manneskja. Dæmi um slíka alþekkta karaktera eru t.d. Mikki mús og Andrés önd, Bangsímon, Paddington og svo mætti lengi telja. Þó karakterar og sögur sem þessar feli í sér skaðlausan og jákvæðan boðskap virðast þær stundum geta orsakað algjöra vanþekkingu á eðli villtra dýra. Til dæmis enduðu líf Timothy nokkurs Treadwell og unnustu hans Amie Huguenard með skelfilegum hætti þegar þau voru lifandi rifin í tætlur og étin af bjarndýrum í Katmai þjóðgarðinum í Alaska þar sem þau höfðust við í tjaldi á afskekktu svæði í margar vikur. Treadwell taldi sjálfum sér trú um að hann væri búinn að mynda náið vináttusamband við villt bjarndýr en illa fór þegar hann reyndi að klappa svöngu dýrinu sem var að undirbúa sig fyrir vetrardvala. Dýrið drap fyrst Treadwell og því næst unnustu hans. Leikstjórinn Werner Hertzog fjallaði um atburðina í heimildarmyndinni Grizzly Man.  

Afmennskun 

Flest stríð ganga út á baráttu hópa um auðlindir og beitilönd. Dráp nasista á gyðingum í síðari heimstyrjöld, og nú harkalegar árásir Ísraelsmanna á Palestínu, eru réttlætt með því að annar hópurinn ógni lífsviðurværi eða gangi á „beitilönd“ hins líkt og þegar meindýr og rándýr gerast keppinautar manna um fæðu.

Í áróðursherferðum gegn gyðingum báru nasistarnir þá síðarnefndu saman við rottur en nú síðast í byrjun október 2023 var haft orðrétt eftir varnarmálaráðherra Ísraels að Palestínumenn væru „human animals“.

Með því að „afmennska“ manneskjur með orðræðu sem líkir þeim við skepnur og meindýr, reyna þeir sem ofríkinu beita að staðfesta leyfið (sem þeir hafa einir veitt sjálfum sér) til að meðhöndla mannfólk eins og dýr.

Þetta hefur ítrekað birst í sögunni með ýmsum hætti en til að nefna tvö nærtæk dæmi má aftur vísa í síðari heimstyrjöld þegar Gyðingar voru neyddir í þrælkunarvinnu áður en þeim var útrýmt í gasklefum, – endanlegt stig þess að líta á þá sem meindýr.

Einnig má nefna þrælahaldara í Bandaríkjunum sem notuðu einfaldlega beina samlíkingu við búfénað til að réttlæta harkalega meðhöndlun sína á saklausu fólki sem var flutt keðjað í skipsförmum frá Afríku og selt á mörkuðum, oft ásamt búpeningi, sem undirstrikaði hlutgervingu þeirra sem eign en ekki manneskjur með sjálfstæða hugsun og vilja.

Að endurhugsa sambandið við náttúruna

Anthropocentrismi er ekki bara hugmyndafræði heldur rótgróin heimsmynd sem mótar daglegt líf okkar og samskipti við bæði náttúruna og umhverfið. Í gegnum aldirnar hefur hvíti karlmaðurinn réttlætt yfirráð sín með því að skipa sjálfum sér í efsta þrep stigveldis sem setur allt annað – konur, dýr, náttúru og jafnvel aðra mannhópa – í þjónustu við hans þarfir.

Þessi hugmyndafræði birtist ekki einungis í stórum samhengjum eins og umhverfisvandamálum og stríðsrekstri, heldur einnig í hversdagslegri orðræðu þar sem við notum dýraheiti til að niðurlægja og afmennska andstæðinga með því að líkja þeim við „meindýr“ og manngera skepnur til að þjóna þörfum okkar fyrir afþreyingu. Mótsagnirnar eru allsráðandi – við elskum gæludýr en étum önnur, verndum sumar tegundir en útrýmum öðrum, og búum til sögur um vináttu manna og dýra á sama tíma og við rekum stóriðju sem byggir á ómannúðlegri og kerfisbundinni nýtingu þeirra.

Að skilja anthropocentrisma sem hugmyndafræði er gott skref í átt að því að endurhugsa samband okkar við náttúruna og aðrar lífverur. Með því að viðurkenna hversu djúpt þessi viðhorf liggja í menningu okkar og tungumáli getum við tekið umræðu um hvort og hvernig við viljum breyta þessu sambandi.

Spurningin er ekki hvort við eigum að hætta að vera manneskjur, heldur hvort við gætum orðið betri manneskjur – manneskjur sem viðurkenna að við erum samofinn hluti af náttúrunni en ekki allsráðandi drottnarar hennar.


Komment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *