Þegar Trump og tæknitröllið stálu kosningunum


Þessi grein var skrifuð í nóvember 2024

Í nóvember 2024 urðu tímamót í sögu Bandaríkjanna þegar Donald Trump sigraði forsetakosningarnar í annað sinn á sínum pólitíska ferli. Sú sem laut í lægra haldi var hin þeldökka Kamala Harris en árið 2016 tapaði önnur kona, Hilary Clinton, fyrir auðkýfingnum aldurhnigna. Hins vegar tókst Trump ekki að sigra Joe Biden árið 2020 – sem gæti mögulega gefið til kynna að bandaríska þjóðin sé lítt hrifin af kvenkyns frambjóðendum. 

Sérfræðingar af öllum sviðum félagsvísindanna, ásamt blaðamönnum og ýmsum greinendum, hafa lagt kapp við að skilja hvaða samspil orsakaþátta leiddu til þess að Trump bar þennan fordæmalausa sigur úr býtum en Eric Cortelessa, blaðamaður hjá Time, vill meina að atkvæðafjöldi Trumps hafi í grunninn ráðist af viðleitni frambjóðandans til að höfða til ungra karlmanna sem ekki höfðu kosið áður (eða voru óákveðnir).

Í þeim tilgangi hafi hann m.a. nýtt bæði kynjaða orðræðu og hugmyndir um „okkur og hina“ (e. tribal politics) með þeim sögulega árangri sem raun bar síðar vitni. 

Holdgervingur ameríska draumsins 

Áratugum áður en auðkýfingurinn Trump bauð sig fyrst fram sem forsetaefni fyrir repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum var hann orðinn vel þekktur í heimalandi sínu og víðar á Vesturlöndum. Hann varð áberandi í kastljósinu á áttunda áratug síðustu aldar fyrir lifnað sem einkenndist af lúxus og glamúr og þannig varð hann sjálfkrafa að táknmynd fyrir „ameríska drauminn“.  

Hugmyndin umameríska drauminn“ er vel þekkt en hún felur í sér þjóðaranda (e.ethos) sem samræmist kenningum mannfræðingsins Claude Lévi-Strauss um goðsagnir sem birtast í gegn um hefðir og orðræðu. Draumur bandarísku þjóðarinnar snýst um einarða leit að hamingju en þarlendis telur fólk að hana sé fyrst og fremst að finna í fjárhagslegri velgengni, þó upprunalega hugmyndin hafi snúist um frelsi einstaklingsins og jöfn tækifæri og réttindi allra þegna til að lifa mannsæmandi lífi .

Trump varð ennþá frægari þegar raunveruleikaþættirnir The Apprentice fóru í loftið árið 2004 en þeir nutu mikilla vinsælda á NBC til ársins 2017. Trump var í senn meðframleiðandi og stjórnandi þáttanna sem snerust um að hópar ungra viðskiptafræðinga og frumkvöðla kepptu í því hver næði besta viðskiptaárangrinum. Færnin var prófuð í því hversu vel keppendur stóðu sig í m.a. markaðssetningu og að hámarka gróða en í lok hvers þáttar féll einn keppandi úr leik um leið og Trump þrumaði „You’re fired!“. Á endanum var svo Trump sjálfur rekinn í kjölfar rasískra ummæla sem hann lét falla um Mexíkana. Þetta var árið 2015, um sama leyti og hann tilkynnti fyrst að hann ætlaði sér í forsetaframboð.  

Þó málið hafi vakið mikla athygli var það ekki í fyrsta sinn sem Trump komst í fréttirnar fyrir að vera rasisti. Allra fyrsta umfjöllunin sem The New York Times birti um manninn snerist einmitt um ákæru sem fasteignafélag Trump fjölskyldunnar fékk fyrir að mismuna leigjendum á grundvelli kynþáttar. Það var árið 1973.

Á þeirri rúmu hálfu öld sem síðan er liðin hefur Trump gefið blaðamönnum óteljandi tilefni til að flytja fréttir af rasískum ummælum, dólgshætti og kvenfyrirlitningu en s.l vor var hann m.a. sakfelldur í 34 ákæruliðum fyrir skjalafalsanir sem tengdust mútugreiðslum til klámmyndaleikkonu.  

Kynjuð skautun og klofinn skjár 

Eins áður segir lagði Trump mikla áherslu á að ná til ungra karlkyns kjósenda en um leið og ljóst varð að mótframbjóðandi hans yrði ekki annar hvítur karl, heldur þeldökk kona, kom kosningateymið með slagorðið „Max out the men and hold the women“. Þetta þýddi m.ö.o. að áherslum í orðræðu skyldi beint frá fóstureyðingum, og glundroðanum í kring um árásina á þinghúsið, og efnahags og innflytjendamálum sem markhópurinn hafði meiri áhuga á. Vörn var snúið í harða sókn.

Trump fékk svo óvæntan (fyrir almenningi) liðsauka þegar Elon Musk, ríkasti maður heims skv. tímaritinu Forbes og mikil fyrirmynd ótal ungra manna, lýsti yfir opinberum stuðningi við framboð sjálfhverfa repúblikanans. Það gerði hann í kjölfar morðtilraunar á hendur Trump þ. 13. júlí 2024. Í sömu viku voru samtökin America PAC stofnuð af Musk í þeim tilgangi að ná til ólíklegra kjósenda (e. low-propensity voters) og þeirra sem höfðu aldrei kosið áður.  

Ástæða til að óttast barnleysi, ekki fóstureyðingar 

Fyrir utan það að vera auðugustu og valdamestu menn jarðar eiga Donald Trump og Elon Musk það sameiginlegt að vera marg giftir, en meðan Trump hefur getið fimm börn (svo vitað sé) hefur Musk getið að minnsta kosti tólf. Musk tilheyrir nefnilega svokallaðri „pro-natalist“ hreyfingu og er á þeirri skoðun að Bandaríkjamenn ættu að óttast barnleysi fremur en fóstureyðingar.

Hann virðist þó engar áhyggjur hafa af meðgönguferlinu og því sem tekur við eftir fæðingu, t.d. tengingu milli móður og barns, sem sést á umfjöllunum fjölmiðla síðustu vikur um forræðisdeilu hans við kanadísku söngkonuna Grimes. Eftir lífshættulega fæðingu sonarins XÆA-12 árið 2021 var staðgöngumóðir ráðin til að ganga með tvö börn í viðbót. Grimes hefur hins vegar lítið fengið að hitta þriðja barnið eftir að það kom í heiminn og um það snúast deilurnar. Á sama tíma sást hann svo fagna kosningasigri Trump með enn annarri barnsmóður, Shivon Zilis, en fregnir herma að hún hafi líka fætt honum þrjú börn á sama tímabili og þau Grimes voru í opinberu sambandi. 

Barnlausa kattarkonan, „ógn við amerísk gildi“ 

Þegar kosningateymi Donald Trump varð ljóst að Kamala Harris yrði mótframbjóðandi Trum en ekki Joe Biden byrjaði orðræðan ekki bara að snúast um litarhaft hennar heldur einnig kyn og barnleysi. Varaforsetaefnið J.D Vance, uppnefndi hana „barnlausa kattarkonu“ og vildi meina að „konur eins og hún“ hefðu „eyðilagt amerísk gildi“. Þessi ummæli Vance, ásamt hegðun bæði Trump og Musk í barneigna og kvennamálum má setja samhengi við kenningar mannfræðingsins Söru Ahmed sem birtast í greinni Happy Objects.

Á bls. 35 bendir Ahmed m.a. á að hugmyndir okkar um hamingju kristallist í andstæðunum við það sem við teljum að muni færa okkur hana:

„Groups cohere around a shared orientation toward some things as being good, treating somethings and not others as the cause of delight“.

Ummæli J.D. Vance afhjúpa þá hugmynd að barnlausar konur geti ómögulega verið hamingjusamar meðan yfirlýsingin um að konur eins og Kamala Harris hafi „eyðilagt amerísk gildi“ undirstrikar að hamingjumarkmiðið verði ekki uppfyllt nema barneignir komi til. Með því að tengja óhamingju og „ónýt gildi“ við barnleysi Harris dregur hann upp neikvæða mynd af mótframbjóðandanum og á sama tíma vegur orðræðan að frelsisbaráttu kvenna sem felur m.a. í sér ákvörðunarrétt yfir eigin líkama og þar með barneignum.  

Valdið yfir líkömum annarra 

Í þessu birtast einnig kenningar Foucaults um biopolitics og biopower sem fyrst komu fram árið 1976 í bókinni The history of sexuality en þær snúast m.a. um hvernig yfirvöld taka sér umboð til að stjórna líkömum fólks. Þannig má tengja hugtökin við yfirlýsingar Trump um að ætla sér að vísa innflytjendum úr landi í stórum stíl (e. mass-deportation) með því að sækja fólk inn á heimili og vinnustaði og fjarlægja það með líkamlegu valdi.

Á heimasíðunni National Immigration Justice Center er að finna sérstaka viðbragðsáætlun fyrir þau sem gætu fundið sig þessari stöðu í nánustu framtíð en ótti hefur gripið um sig í röðum innflytjenda vegna ummælanna. 

„Points of alignment“ 

Í áðurnefndri grein lýsir Sarah Ahmed Bandaríkjunum sem „þjóð sem snúist um að uppfylla markmiðið um að höndla hamingjuna“, eða „A land that makes the pursuit of happiness an orginary goal“. Hún skrifar að hópar mótist þannig út frá sameiginlegum hugmyndum um hamingju, eða „points of alignment“. Það er óhætt að fullyrða að mikið skorti upp á „points of alignment“ hjá bandarísku þjóðinni í dag en blaðamaðurinn Cortelessa, sem er sérfræðingur í málefnum Trumps, líkir þeirri áberandi skautun sem nú ríkir við tvískiptan skjá (e. split screen) sem eigi eftir að móta (e. animate) orðræðu í Bandaríkjunum næstu 4 árin. Þá fullyrðir hann jafnframt að þjóðin hafi ekki verið jafn sundruð (e. poliarized) frá því að borgarastyrjöldinni geysaði í landinu, 1861-1865. 

Þjóðernishyggja, nýfrjálshyggja, sögur og tákn 

Hvað orðræðu varðar þá eru frásagnir og sögur (e. narrative) eitt öflugasta vopn nýfrjálshyggjunnar en án trúverðugrar sögu getur góð markaðssetning ekki átt sér stað. Dæmi um svona sögur eru t.d. „útrásarvíkingarnir“ sem Íslensk erfðagreining notaði þegar leitað var eftir erlendum fjárfestingum í fyrirtækið á tímum hins svokallaða góðæris. Þá var einmitt þeirri sögu haldið á lofti að karlar í íslenskum viðskiptum væru með sérstakt DNA sem gerði þá að einhverskonar ofurmennum (þ. übermensch) á sviði útrásarviðskipta en um þetta skrifaði mannfræðingurinn Gísli Pálsson í grein sem ber titilinn The banality of financial evil. Í þessari fjarstæðukenndu hugmynd tvinnuðust saman nýfrjálshyggja og þjóðernishyggja en sögur eru einmitt elementið sem báðar þessar kenningar snúast um í grunninn. Með öðrum orðum, að búa til sögur sem skapa hughrif sem leiða til þess að fólk upplifir tilfinningu um einhverskonar yfirburði, bæði sem einstaklingar (nýfrjálshyggja) og hópur (þjóðernishyggja).  

Notkun á litum og táknum við markaðssetningu hugmynda 

MAGA eða „Make America Great Again“ frasinn sem Trump fór af stað með í fyrri kosningaherferð, og heldur stöðugt á lofti, er í grunninn nostalgísk og þjóðernissinnuð hugmynd sem snýst um að allt hafi verið svo gott í gamla daga. Á sama tíma er MAGA líka vörumerki fyrir áþreifanlegan varning því á vefsíðunni www.maga.com er hægt að kaupa ýmsa gripi með myndum af forsetanum og fleiru sem tengja má við Donald Trump og kosningarnar.

Ásýnd vörumerkisins sem og vöruframboðið (golfkúlur, skotglös, viskíglös og hettupeysur) bera vott um ýkta/eitraða karlmennsku en litirnir rauður; svartur og hvítur eru þeir sömu og nasistaflokkur Þýskalands (og fleiri öfgasinnaðir þjóðernishópar) hafa notað í sinni ímyndarsköpun. Þessa notkun á táknum má m.a. setja í samhengi við kenningar mannfræðinganna Victors Turner og Clifford Geerz um tákn og merkingar, en „hetjuleg“ viðbrögð (e.performance) Trumps við morðárásinni 13. júlí 2024, sem og öll ásýnd MAGA, virðist einmitt sérstaklega til þess fallin að höfða til ungra karlmanna með viðkvæma sjálfsmynd.

Það þarf heldur ekki að koma á óvart að Trump segist hafa fundið það á sér að menn sem stunda bardagaíþróttir (MMA) ættu eftir að elska sig í þessum kosningaslag og því hafi hann ákveðið að miða sérstaklega á þá í þessari lotu. 

Sem slíkur er sjálfur Donald Trump fyrir löngu orðinn að vörumerki og tákni (e. icon) fyrir auðvald, hégóma og efnishyggju. Hann lætur aflita á sér hárið, notar brúnkukrem og fer ekki út úr húsi án þess að vera í jakkafötum og með ýmist blátt eða rautt bindi. Það er hans einkenninsbúningur og um leið einkennisbúningur hins hvíta vestræna karls, skriffinnskuvæðingarinnar, nýfrjálshyggjunnar og kapítalismans.  

Strákarnir og orðræðan 

Samfélagsmiðlar gegna algjöru lykilhlutverki í að koma skilaboðum til kjósenda og hafa gert síðustu ár. Þar kom Elon Musk sterkur inn í herferð Trumps með sínar fleiri hundruð milljónir fylgjenda á X.

Samkvæmt tölfræðivefnum Soax.com eru notendur X í Bandaríkjunum rúmlega 105 milljónir. Þar af eru meirihlutinn karlmenn, 18-35 ára. Til að ná til þeirra einbeitti Trump sér sérstaklega að því að mæta í vinsæl hlaðvarpsviðtöl og mun sú stragedía hafa ráðið úrslitum með sigurinn að mati Cortelessa. Helstu aðdáendur þessara hlaðvarpa eru jú hinir áðurnefndu óákveðnu kjósendur sem sýna stjórnmálum almennt takmarkaðan áhuga, en þegar þeir gera það þá er það vegna áhrifa frá því sem Cortelessa kallar „Edgy bro podcasts“. 

„The ensuing weeks were marked by a succession of fawning interviews with laddish podcast hosts: Logan Paul, Theo Von, Joe Rogan.“

Eric Cortelessa, 2024. Time.com

Hlaðvarpsstjórarnir Logan Paul og Joe Rogan eru báðir þekktir fyrir að stunda bardagaíþróttir en Musk hefur verið fastagestur í hlaðvarpi þess síðarnefnda í nokkur ár. Um þremur dögum fyrir sjálfan kosingadaginn lýsti Rogan yfir opinberum stuðningi við Trump en þá hafði Elon Musk setið hjá honum í tveggja og hálfar klukkustundar löngu viðtali þar sem hann lofaði forsetann í hástert og fór með ýmsar staðreyndavillur.  

Meðan á herferðinni stóð nýtti hann sinn persónulega X reikning, sem er með rúmar 205 milljónir fylgjenda, til að endurbirta efni frá Trump og ýta undir samsæriskenningar af ýmsu tagi. Þá borgaði hann jafnframt væntanlegum kjósendum 100 dollara fyrir að skrá nöfn sín á undirskriftalista America PAC og hélt happadrætti daglega þar sem skráðir áttu kost á vinna 100 milljónir dollara. Allt þetta og meira til auglýsti hann viðstöðulaust á eigin samfélagsmiðli, X.

Musk situr nú undir ákærum fyrir að kaupa atkvæði af kjósendum en neitar sök. Hann heldur því líka fram að eftir að hann keypti samfélagsmiðilinn (sem áður hét Twitter) hafi málfrelsið átt afturkvæmt, en samkvæmt David Ingram, blaðamanni NBC news stemmir það alls ekki. Hann skrifar að í aðdraganda kosninganna hafi fjöldinn allur af tilkynningum borist um að lokað hafi verið lokað á aragrúa notenda og hópa sem hallast á vinstri vænginn og tekur dæmi um reikninga á borð við „White dudes for harris“ og „Progressives for Harris“ . Einnig að margir notendur hafi ekki getað fylgt @KamalaHQ, sem er aðal reikningur frambjóðandans fyrrverandi á X. 

Upphafið að endinum? 

Af öllu ofangreindu má ráða að ýmsir mismunandi orsakaþættir, bæði mennskir og ómennskir, leiddu til þess að Donald Trump verður skipaður forseti Bandaríkjanna árið 2025. Þeir Trump og Musk treystu á tvíhyggjuna og notuðu skautaða orðræðu af miklum krafti í þeim tilgangi að koma þeim fyrrnefnda í valdasætið. Til að byggja undir þetta var tölvutæknin einnig nýtt til hins ítrasta, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem tæknirisi og eigandi samfélagsmiðils, skiptir sér af kosningum með þeim hætti sem Elon Musk gerði árið 2024.  

Í fljótu bragði virðist einfalt að bera þetta saman við afstöðu fjölmiðlaeigenda til stjórnmálastefnu því slíkt hefur alltaf þekkst en hvað varðar samfélagsmiðil af þessari stærðargráðu þá er staðan önnur og umtalsvert áhrifameiri:

Með aðstoð gervigreindar er nú hægt að greina og nýta tölfræðigögn um áhugasvið og breytingar á skoðunum sem birtast í innbyggðum reikniritum með áður óþekktum hraða. Hraða sem enginn mannlegur máttur gæti náð að fylgja eftir á jafn skömmum tíma. Þessi reiknirit veita innsýn í notendahópinn, hvað þeir eru líklegir til að taka vel í, hvernig skoðanir þeirra þróast og hvaða málefni skipta þá mestu máli í rauntíma.  

Í þessu samhengi á vel við að nefna tvær nútímakenningar í mannfræði. Annars vegar ANT eða Actor Network Theory kenningu Bruno Latour og hins vegar samsetningar kenninguna (e. assemblage theory). Símar með samfélagsmiðlaforritum eru í þessu samhengi „atbeini“ sem tengjast hrifunum í samfélaginu og hafa bæði áhrif á, og nema áhrifin, af því sem er að gerast í beinum samtíma.

Með því að hafa beint aðgengi að markhópi og beita lögmálum sálar -og markaðsfræða (um að t.d. mega tilheyra hópi), gat Elon Musk aukið sýnileika tiltekinna skilaboða, frétta og áróðurs sem studdi stefnu Trumps, meðan andstæð sjónarmið voru þögguð. Þá gat hann einnig lesið í dýnamík og óstöðugleika (hrif) og notað úrvinnslu tölfræðigagna til að miða skilaboð sérstaklega að ólíkum hópum með mismunandi áherslum, sem gátu aftur hámarkað áhrif skilaboðanna á þá tilteknu kjósendur. Með því að ýta undir umræður eða deilur sem sundruðu andstæðingum enn frekar og efldu stuðning við hans eigin fylkingar, – America PAC og MAGA gat hann bæði skapað og nýtt skautun framboði Trumps í hag, innan tímaramma sem ómögulegt hefði verið að ná utan um, án þekkingar og aðgengis að innsta kjarna tæknirýmisins. 

Þessi raunveruleiki minnir helst á eitthvað úr vísindaskáldsögu eftir George Orwell en allt bendir til þess að ákvörðun Elon Musk, um að veita hinum aldraða þjóðernissinna Donald Trump liðsauka í kosningaslagnum, hafi fyrst og fremst stafað af þörf til að vernda eigin hagsmuni. Fyrir því eru margar ástæður en ein mun vera sú að dómsmálaráðuneyti Biden stjórnarinnar hafði lagt drög að vantrautsstillögu á hendur stóru tæknirisunum (Google, Apple, Meta og Microsoft) og gert kröfu um aukið eftirlit og gagnsæi með starfsemi stórra tæknifyrirtækja.  

Með því að nýta vinsældir og áhrifavald, tækni á borð við gervigreind, reiknirit og tölfræði, þekkingu, aðgengi, fjármagn og ýmsar aðrar auðlindir í þágu Trump tókst ríkasta manni veraldar hið ótrúlega, nefnilega að stela kosningunum í Bandaríkjunum árið 2024 með afleiðingum sem eiga aðeins eftir að koma í ljós.  

Þetta gæti reynst upphafið að endi þess sem við köllum lýðræði í dag og um leið fyrsti kaflinn í sögu gjörbreyttra stjórnarhátta, þar sem eigendur og stjórnendur tæknifyrirtækja (e.technocrats) í samvinnu við gervigreind og flókin tæknikerfi, taka smám saman yfir valdastöður – og móta framtíð mannkyns og jarðar. 


Heimildir:  


Komment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *