Veturgömul kind varð að farsíma

Tölvumál og textatal: Um þróun og þýðingar tölvuorða á íslensku

Tölva, hugbúnaður, stýrikerfi, vafri, hlekkur, þjöppunarstaðall, farsími og snjallsími: Allt eru þetta vel þekkt orð sem urðu til á íslenskri tungu fyrir fáeinum árum og áratugum og dæmi um nýyrði sem komu til vegna byltingarkenndrar tækni sem þróaðist upp úr nýrri tegund af máli sem notað var til að eiga í „samskiptum“ við vélar.

Hér er um svokallað tölvumál að ræða en undir því regnhlífarheiti rúmast til dæmis íðorð og ýmsir aðrar skilgreiningar sem tengjast bæði því sem tölvurnar gera – og því sem við mannfólkið gerum með tölvutækninni.  

Plankalkül

Samkvæmt Snorra Agnarssyni á Vísindavef Háskóla Íslands var það þýski vísinda -og uppfinningamaðurinn Konrad Zuse sem þróaði fyrsta forritunarmálið á árunum 1942 til 1946. Málið kallaði hann Plankalkül og setti saman úr orðunum plan og kalkül.

Konrad Zuse

Plan skýrir sig sjálft en seinni helmingur orðsins calcul er örlítið flóknara hugtak.

Í samhengi við plankalkül forrit Zuse táknar það útreikning sem byggist á stærðfræðilegum ályktunum. Í fransk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs sem kom út árið 1995 þýðir Þór Stefánsson orðið calcul sem sögnina „að áætla“ en calcul hefur flóknari merkingar á öðrum tungum sem tengjast því sem er á einhvern hátt fyrirsjáanlegt, hægt að reikna með eða álykta og á til að mynda við í bæði stærðfræðilegum og félagsvísindalegum skilningi.

Tölvur þýða tungumál

Upp úr 1950, gerðu vísindamenn í Georgetown háskóla og sérfræðingar hjá IBM Bandaríkjamenn fyrstu tilraunina til að nota tölvu til þess að þýða tungumál með því að forrita að minnsta kosti sex málfræðireglur og um 250 orð inn í tölvu sem skilaði af sér 60 sjálfvirkum þýðingum.

Næsta áratuginn hélt þróun tölvuþýðinga áfram en skilaði aldrei þeirri útkomu sem væntingar stóðu til þrátt fyrir að mikið fjármagn, tími og peningar væru lagðir til. Fyrir utan erfiðleikana sem fylgdu því að fá tölvurnar til að skila málfræðilega réttum texta þá vantaði alltaf mikið upp á að flóknar merkingar sem tengjast t.d. samhengi og þekkingu úr lífinu sjálfu kæmust til skila.

Með öðrum orðum þá þurfti alltaf þýðendur af holdi og blóði til að lagfæra þýðingarnar sem forritin skiluðu af sér og nú, rúmum sjötíu árum síðar, virðist þetta lítið hafa breyst þrátt fyrir geysilegar framfarir í stafrænni tækni. 

Tölur + völva = tölva 

Skömmu eftir að fyrstu tölvurnar komu til Íslands árið 1964 voru ýmis orð notuð um þessar nýstárlegu vélar, til dæmis rafeindaheilar, reikniheilar og rafreiknar.

Þessi orð hurfu svo skyndilega úr málinu þegar Sigurður Nordal, prófessor, stakk upp á hinu frábæra orði tölva.

Það gerði hann eftir að hafa heyrt af samtali við Magnúsar Magnússonar, prófessor emeritus, við Pál Bergþórsson, veðurfræðing, en sá síðarnefndi tengdi virkni „rafheilans“ við spádómsleik barna sem gekk út á að setja völustein á höfuðið, spyrja já eða nei (binary) spurninga og kinka svo kolli þannig að steinninn féll á jörðina. Hvort svarið var já eða nei réðist af því hvort hann féll á hlið eða rönd. Meira um þetta hér.

Tölva þótti Sigurði bæði gott og lýsandi yfir fyrirbærið þar sem vélarnar „hugsa“ eftir tvíundakerfi (e. binary) og orðið völva vísar í spákonu. Í þessu samhengi mætti greina einskonar tengingu milli orðanna Plankalkül og tölva þar sem merkingarinntakið er sambærilegt í þeim skilningi að það er verið að álykta eða spá fyrir um eitthvað.

Tölvur á Íslandi

Talað er um að fyrstu tölvurnar hafi komið til Íslands árið 1964 og voru þær teknar í notkun hjá Háskóla Íslands og Skýrsluvélum ríkisins. Fjórum árum síðar var sérstök nefnd sérfræðinga og áhugamanna um tölvur og tölvutækni sett á laggirnar og hét hún Skýrslutæknifélag Íslands en stofnunin gengur nú undir heitinu Ský í daglegu tali.

Fljótlega eftir stofnun Skýrslutæknifélagsins var farið í að safna saman íslenskum orðum sem tengdust tölvum og gagnavinnslu, og þýða erlend orð og ný hugtök yfir á íslensku.

Aðal markmið nefndarinnar var að gera Íslendingum kleift að tala og skrifa um tölvutækni á íslensku og gera tilraun til að staðla orðaforðann. Í kaflanum Að tala og rita um tæknina á íslensku sem lesa má á vef Ský.is útskýrir Sigrún Helgadóttir (sem var einn af fjórum meðlimum fyrstu tölvuorðanefndar), að hin einfalda íðorðastefna orðanefndarinnar hafi frá upphafi verið að: a) nota íslenska stofna ef þess væri kostur og b) að nota þá þýðingaraðferð sem hentaði best hverju sinni.

Árið 1974 sendi tölvuorðanefndin frá sér tölvuprentaðan 700 orða lista sem bar yfirskriftina Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í dag eiga tíu sérfræðingar sæti í orðanefndinni og fjöldi hugtaka í nýjasta tölvuíorðasafninu á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þann 20. nóvember 2023, eru orðin 7067 talsins.

Þegar veturgömul kind varð að farsíma

Þegar kemur að orðum sem tengjast áþreifanlegum tölvubúnaði er óhætt að fullyrða að íslensk nýyrði og beinar þýðingar úr enskum frumtexta séu flest orðin rótgróin í tungumálinu. Sem dæmi má nefna lyklaborð, mús, hugbúnað, harðan disk, tölvuskjá, borðtölvu, fartölvu og snjallsíma.

Annað er uppi á teningnum þegar kemur að orðunum sem við notum í samskiptum við hvort annað í gegn um þessi tæki því þar eru skammstafanir og slettur mjög áberandi. Þá hafa ýmsar nýmerkingar ratað inn í íslenska orðabók og geta sumar verið skemmtilegar. Sem dæmi um má nefna orðið gemsi sem í eldra máli var notað um veturgamla kind en fékk alveg nýja merkingu þegar byrjað var að nota það um GSM farsíma.

Það hversu vel slettur og erlend orð beygjast og falla að íslenskri málfræði hefur áhrif á hvaða nýyrði og þýðingar sem tengjast tölvutækninni ná fótfestu eða falla úr töluðu og rituðu máli. Sumar þýðingar eru notaðar um tíma en er svo skákað út af slettum, eða þá að orðin úr frummálinu ná yfirhöndinni þegar þau komast í nýjan búning sem fellur vel að íslenskri beygingarhefð.

Þetta á til dæmis við um sagnorð sem fá íslenska nafnháttarmynd og fulla beygingu. Fyrst um sinn var orðið niðurhal t.d. notað yfir það að sækja skrár en nú tala flest um sögnina að dánlóda. Það sama á við um tölvupóst og email en á áratugnum 2000-2009 kemur orðið tölvupóstur töluvert oftar fyrir en email þegar báðum orðunum er slegið inn í leit á Tímarit.is. Þá skilar tölvupóstur 4707 leitarniðurstöðum meðan email skilar 3250 niðurstöðum. Næsta áratug á eftir, frá 2010-2019, hafði enska orðið email skákað íslenska orðinu því þá kemur það fyrir í 2547 skipti en tölvupóstur aðeins 1311 skipti. Í báðum tilvikum hafði þó dregið mjög mikið úr notkun beggja orðanna frá 2010-2019 sem eflaust má tengja við tilkomu snjallsímanna sem buðu upp á fljótvirkari samskiptamáta á borð við Facebook Messenger og önnur sambærileg forrit. 

Hnattvæðing og textamál á alþjóðatungu 

Fyrstu textaskilaboðin sem hægt var að senda í gegn um farsíma eru kölluð SMS í daglegu tali (e. short message service). SMS tæknin gerði íslenskumælandi fólki ekki auðvelt að senda löng skilaboð og í raun var það eitt að senda SMS frekar tímafrekt verkefni. Íslensku sérstafirnir voru ekki á lyklaborði farsímanna svo það þurfti t.d að slá inn th í staðinn fyrir þ og ae í staðinn fyrir æ og það var talsverð fyrirhöfn að slá inn lyndistáknin líka.

Hjarta var skrifað sem ör og tölustafurinn þrír og broskarl var gerður með því að slá inn tvípunk, bandstrik og sviga : – ). Því urðu bæði íslenskumælandi farsímanotendur (og raunar fólk um allan heim) ekki lengi að tileinka sér skammstafanir á borð við LOL (e. laughing out loud), OMG (e. oh my god) og BRB (e. be right back) í smáskilaboðasendingum.

Á ensku kallast svona styttingar í rafrænum samskiptum textamál eða textspeak og hafa margar styttingar af þessu tagi, til dæmis LOL, verið samþykktar inn í ensku Oxford orðabókina.

Ýmsar formlegar og óformlegar rannsóknir hafa verið gerðar á textamáli eða textatali en í forvitnilegri grein sem birtist á vef tækni tímaritsins PC Magazine árið 2023 er fjallað um samantekt þar sem átján milljón tístum var safnað saman út frá staðsetningarmerkjum og svo var unnið úr gögnunum til að greina hvaða skammstafanir voru vinsælastar í hverju fylki. Niðurstöður samantektarinnar sýndu m.a. að íbúar í Idaho nota minnst af textamáli, íbúar í Georgíu nota það mest og að LOL er langvinsælasta textaorðið í öllum fylkjum Bandaríkjanna samanlagt. 

Breytingar í boði samfélagsmiðla

Þegar tölvutæknin var innleidd á Íslandi árið 1964 höfðu fæstir Íslendingar skilning á ensku eins og nú tíðkast og almenningur frétti yfirleitt af nýrri tækni í gegn um ritstýrða fjölmiðla eða þýtt námsefni. Af því má draga ályktun að íslensku orðin yfir tölvu – og tækninýjungar hafi frekar náð að verða hluti af tungumálinu en nú á tímum hnattvæðingar, samfélagsmiðla og stafrænnar miðlunar.

Drjúgur hluti af öllu kennsluefni í íslenskum háskólum er á ensku, veitingastaðir um allt land hafa ensk nöfn, við tölum ensku við fólk sem starfar í þjónustugeiranum og flest horfa á afþreyingarefni sem er skrifað og framleitt á ensku án þess að íslenskur texti fylgi með. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að íslenskumælandi fólki verði ósjálfrátt tamara að sletta ensku orðunum, textamálinu og hugtökunum sem birtast í samskiptaforritunum sem við notum á hverjum degi.

Í stað þess að læra ný orð um tölvutækni sem sett eru saman af sérlega skipaðri tölvuorðanefnd og birt á prenti í sérstökum orðabókum er það almenningur sem snýr enskum orðum upp í íslensk tökuorð, slettur og nýmerkingar og þessi orð fara svo í dreifingu gegn um samfélagsmiðla án ritstýringar eða aðkomu málverndarstofnana á borð við RÚV. Þannig eru til að mynda ensku orðin block og like notuð með íslenskum framburði og íslenskri stafsetningu þannig að við bæði skrifum og tölum um sagnirnar að blokkera og læka á Facebook. Þar með er þó ekki sagt að öll ensku sagnorðin um hegðun okkar á Facebook hafi fundið sér stað í íslenskunni.

Á vef Vísis þann 9.nóvember 2023 er t.d. frétt sem fjallar um mótmæli gegn stríðinu í Palestínu og áhuga á þátttöku í þeim en þar stendur „Nærri fimmhundruð manns merktu við „going“ á Facebook-viðburði og nærri þúsund manns merktu við „interested“.“

Í þessu tilfelli setur blaðamaður ensku orðin í gæsalappir enda hafa orðin „góíng“ og „intrested“ hvergi verið skráð í íslenskar orðabækur þegar þetta er ritað og verða það líklega aldrei, enda falla þau ekki að íslensku beygingarmáli. 

Er rétt að hafa áhyggjur?

Þann 1. febrúar 2022 birtist umfjöllun úr þættinum Kveikur á vef RÚV.is með fyrirsögninni Enska þrengir að íslenskunni.

Í þættinum var fjallað um áhyggjuefni sem lýtur að því að stór hluti málumhverfis barna á Íslandi sé nú á ensku og að aldrei í sögu þjóðarinnar hefði erlent tungumál verið jafn fyrirferðarmikið.

Rætt var við Sigríði Sigurjónsdóttur, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, og Eirík Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði, en þau fóru fyrir öndvegisrannsókninni Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis á árabilinu 2016-2019. Rannsókn þeirra gekk út á að kanna hvaða áhrif sambýlið við ensku í gegn um snjalltæki og stafræna miðla hefði haft á íslenskuna, sérstaklega hjá börnum og ungmennum.

Ein niðurstaða leiddi í ljós að notkunarsvið íslenskunnar hefur minnkað vegna þess að stafræni heimurinn er að mestu leyti á ensku en þetta virðist þó ekki hafa haft skaðleg áhrif á íslenskukunnáttu barna ef marka má Írisi Eddu Nowenstein, doktorsnema í málfræði, sem gerði sérstakt rannsóknarverkefni út frá fyrrnefndri öndvegisrannsókn ásamt Sigríði Sigurjónsdóttur.

Þar kom í ljós að mikil enskunotkun 3-12 ára barna er ekki endilega alltaf á kostnað íslenskunnar, auk þess sem enskumagn og enskuáhugi barnanna tengist fyrst og fremst aukinni enskufærni þeirra. Í niðurlagi rannsóknarinnar taka höfundarnir þó fram að enn sem komið er sé erfitt að spá fyrir um íslenskufærni þessa aldurshóps. 

Hvort niðurstöður þessara rannsókna muni hafa eitthvað að segja fyrir framtíðar verkefnastöðu tölvuorðanefndar er mögulega annað rannsóknarefni en víst má telja að það verði alltaf ástæða til að (minnsta kosti) láta reyna á þýðingar á nýjum hugtökum og orðum sem verða til í hinni nýju stafrænu veröld ef vilji er til að efla og varðveita íslenska tungu því það er aldrei að vita nema textatalið OMG verði að GMG líkt og GSM varð að gemsa.

„ Hann var hrifinn af úttrykkjabyltingu“

Þrátt fyrir að þýðingaforrit sem byggjast á gervigreind hafi stórbatnað á síðustu árum eiga þau enn óralangt í land eins og sjá má af eftirfarandi dæmum þar sem enskur frumtexti af heimasíðu Nóbelsverðlaunanna er þýddur yfir á íslensku af þremur mismunandi gervigreindarforritum.

FRUMTEXTI

Halldór Kiljan Laxness was born in 1902 in Reykjavik, the capital of Iceland, but spent his youth in the country. From the age of seventeen on, he travelled and lived abroad, chiefly on the European continent. He was influenced by expressionism and other modern currents in Germany and France. 

ÞÝÐINGAR

1. Halldór Kiljan Laxness fæddist árið 1902 í Reykjavík, höfuðborg Íslands, en tilbragte unglingsár sín á landi. Frá sjöntándra ára aldri ferðaðist hann um heiminn og lifði mest á Evrópskum heimshluta. Hann var áhrifavaldur af tjáningu og öðrum nútíma straumum í Þýskalandi og Frakklandi.

(OpenAI, 2023). 

2. Halldór Kiljan Laxness fæddist árið 1902 í Reykjavík, höfuðborg Íslands, en eyddi unglingsárunum sínum á landinu. Frá sjöntán ára aldri ferðaðist hann og bjó erlendis, aðallega á Evrópuskri höfuðborgarsvæðum. Hann var hrifinn af úttrykkjabyltingu og öðrum nútímaströum í Þýskalandi og Frakklandi.

(Snapchat, 2023) 

3. Halldór Kiljan Laxness fæddist árið 1902 í Reykjavík, höfuðborg Íslands, en tilbragði unglingaárin sín í landinu. Frá sjöntán ára aldri ferðaðist hann um og bjó erlendis, helst á Evrópska kontinentinu. Hann var áhrifasamur af expressionismu og öðrum nútímalegum straumum í Þýskalandi og Frakklandi.

(AI Translator, 2023

 

 

 


Komment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *