Áhrif tækniþróunarhraða á menningu og samfélög (og mikilvægi stafrænnar mannfræði í nútímanum)
Eitt af því sem gerir manninn einstakan í lífríki jarðar er framúrskarandi hæfileiki til að þróa og skapa verkfæri, og mynda flókna verkferla sem byggja á samvinnu margra einstaklinga við gerð hinna ýmissu hluta. Menning mannsins er í raun samofinn öllum þeim ólíku hlutum og ferlum sem við höfum skapað og reiðum okkur á við athafnir daglegs lífs í smáu sem stóru því hvort sem um ríka eða fátæka einstaklinga og samfélög er að ræða þá skipta hlutir miklu máli frá því við komum í heiminn og þar til við drögum okkar síðasta andardrátt.
Af þessum orsökum er takmarkað hægt að skoða manneskjuna og mannleg samfélög sem fyrirbæri án þess að taka tillit til hlutanna sem fylgja þeim og tækninnar sem þau búa yfir. Breski mannfræðingurinn (og einn helsti gúrú stafrænnar mannfræði) Daniel Miller skrifar í bók sinni Stuff, að hlutir séu ekki bara aukaatriði í mannlegri tilveru heldur grundvallarþáttur í því hvernig við skilgreinum okkur sjálf og samfélag okkar:
„Material culture matters because objects create subjects more than the other way round“
Daniel Miller, Stuff, bls.5
Í þessu samhengi er því sérlega áhugavert að skoða hvernig „hlutir“ sem snúa að möguleikum manneskjunnar til samskipta hafa haft áhrif á einstaklinga og samfélög í gegn um aldanna rás, og velta vöngum yfir því hvers sé að vænta í nánustu framtíð með tilliti til hraða í tækniþróun.

Þróun og saga samskipta -og upplýsingatækni
Að baki hverjum hlut liggur tæknin sem bjó hann til. Til að prjóna peysu þurfti fyrst að finna upp hníf til að skera ullina, kamb til að greiða úr henni, rokk eða snældu til að spinna hana og prjóna til að prjóna hana með sérstakri tækni sem gerði það að verkum að hún varð nægilega þétt til að veita líkamanum skjól. Svona má rekja svo gott sem hvern einasta hlut sem við sjáum í okkar daglega lífi. Þessi samþætting manneskja, verkfæra og tækni er það sem franski heimspekingurinn, félags -og mannfræðingurinn Bruno Latour kallar actor-network theory þar sem bæði manneskjur og hlutir eru virkir gerendur í samfélagslegu neti en kenningasjónarhorn Latour gæti reynst sérlega gagnlegt þegar kemur að því að kanna áhrif nýrrar samskiptatækni á fólk og samfélög frá sjónarhóli mannfræðinnar.
Í sinni tærustu mynd fara mannleg samskipti fram með samtali þar sem tvær eða fleiri manneskjur koma saman til að skiptast á upplýsingum og skoðunum. Þar koma engir hlutir við sögu. Til forna átti flest fólk lítil samskipti með öðrum hætti en þessum og blandaði því helst geði við einstaklinga í sínu nærumhverfi. Fólk sem talaði sama tungumál. Ef til stóð að koma samskiptum um langan veg var hægt að skrifa bréf og notast við sendiboða, póstsendingar eða bréfdúfur, en það var ekki hluti af því sem almenningur gerði á hverjum degi og heyrðu þess háttar samskipti því til undantekninga. Nokkrar byltingarkenndar uppfinningar í formi áþreifanlegra hluta urðu til þess að möguleikar mannkyns á hvers konar samskiptum við hvort annað tóku róttækum breytingum, en frá miðri tuttugustu öld hafa breytingarnar orðið svo miklar og örar að nær væri að líkja áhrifunum þeirra á mannleg samfélög við gagngera umpólun.
Rekjum hér tilkomu þessara samskiptatækja í grófum dráttum:
Fyrst ber að nefna prentpressuna, uppfinningu Jóhannesar Gutenberg (1400-1468), sem leit dagsins ljós í Þýskalandi árið 1440. Prentpressan notaði hreyfanlegar leturgerðir úr málmi, sem hægt var að endurnýta og endurraða til að prenta mismunandi texta með meiri hraða en áður hafði þekkst. Þetta gerði fjöldaframleiðslu bóka mögulega sem leiddi til aukinnar dreifingar á þekkingu og hugmyndum. Um leið og úrval af áhugaverðu lesefni (sem var bæði ódýrt og aðgengilegt) varð meira, jókst læsi almennings og stuðlaði það smám saman að lýðræðisvæðingu þekkingar.
Bandaríski sagnfræðingurinn Elizabeth Eisenstein rekur sögu áhrifa prenttækninnar í bókinni The Printing Press as an Agent of Change (1980). Verkið fjallar m.a. um hvernig prenttæknin hafði djúpstæð áhrif á endurreisnina, siðbótina og ekki síst vísindalegu byltinguna vegna þess að hún gerbreytti því hvernig almenningur gat nálgast þekkingu og aflað sér upplýsinga.
Hraðari þróun, styttri aðlögunartími
Í ljósi nútíma tækniþróunar, og hraðanum á gangi mála eftir tilurð internetsins, er sérlega áhugavert að líta til þess hvað þessar breytingar áttu sér stað á löngum tíma. Samfélög fengu margar aldir til að aðlagast nýrri tækni og áhrifum hennar á félagslega uppbyggingu, trúarbrögð og stjórnmál. Næstu stóru breytingarnar urðu nefnilega ekki fyrr en tæpum fjögurhundruð árum síðar þegar ritsíminn var fundinn upp árið 1837 en það var bandaríski uppfinningamaðurinn Samuel Morse (1791–1872), sem tæknin er kennd við, sem hlaut heiðurinn af henni.
Aðstoðarmaður Morse þróaði með ritsímanum sérstakan Morse-kóða sem var notaður til að kóða venjulega bókstafi í raðir af stuttum og löngum merkjum (punktar og strik) sem voru send yfir rafmagnsvír til að koma skilaboðum í formi stuttra setninga áleiðis. Þetta kerfi lagði grunninn að nútíma fjarskiptum og stafrænum samskiptum en Morse kóðinn er í raun svokallað tvíundakerfi (e. binary system), svipað og tölvur nota með 1 og 0. Fyrsta vel heppnaða skilaboðasending með ritsíma átti sér stað árið 1844 og mörkuðu þau skilaboð upphaf nýrra tímamóta í fjarskiptum og samskiptum milli fyrirtækja, stofnana og opinberra aðila.
Nú liðu 32 ár í næstu kaflaskil en vísindamaðurinn Alexander Graham Bell (1847–1922) kynnti talsímann til sögunnar árið 1876. Talsíminn gerði fólki kleift að eiga samtöl í rauntíma yfir langar vegalengdir og átti það eftir að hafa mikil áhrif á sambönd og samfélög með margvíslegum hætti. Það er óhætt að fullyrða að mikil gerjun á sviði tækniframfara hafi átt sér stað á Vesturlöndum á síðari fjórðungi nítjándu aldar því á þessum árum gerðust hlutirnir hratt.
Skömmu fyrir aldamótin 1900 fékk faðir útvarpstækninnar, Guglielmo Marconi (1874-1937) sitt fyrsta einkaleyfi fyrir þráðlausum útvarpsbúnaði, en það var einmitt stuttu eftir að Lumière bræður héldu fyrstu kvikmyndasýninguna í París árið 1895. Tæpum þremur áratugum síðar var svo fyrsta sjónvarpstækið keypt af almennum borgara í Selfridges í London árið 1927 og áratug síðar fóru þau í almenna sölu í Bandaríkjunum og urðu með tímanum staðalbúnaður á flestum heimilum. Í hnotskurn þá liðu 404 ár frá prentpressu til ritsíma, frá ritsíma til talsíma 32 ár, og frá talsíma til útvarps aðeins rúm 20 ár.
Tölvur og internet – Stafræn bylting
Í áhugaverðri grein sem ber yfirskriftina The evolution of the Internet: From military experiment to General Purpose Technology fer höfundurinn John Naughton yfir tilurð og þróun internetsins.
Hann rekur hvernig netið þróaðist frá því að vera leynileg hernaðartilraun í kalda stríðinu yfir fyrirbæri sem tilheyrir daglegu lífi almennings og lýsir því hvernig það var hannað, ekki aðeins út frá innbyggðum möguleikum tækninnar heldur einnig út frá pólitískum, hugmyndafræðilegum, félagslegum og efnahagslegum þáttum.
Þá bendir hann á hvernig netið, líkt og aðrir samskiptamiðlar, varð á endanum að valdatæki fyrir fjármálaöfl, jafnvel með meðvitund stjórnvalda:
„Each new technology: the telephone, radio, movies, and television, initially engendered waves of creativity, excitement, and utopian hopes. But each, in the end, was ‘captured’ by corporate interests, sometimes with the connivance of government.“
John Naughton
Það sem einkennir stafræna tækni í samhengi við samskipti og upplýsingar er að hún sameinar áður aðskilin formöt í eitt allsherjar samskiptatól í formi tölvu eða snjallsíma. Þá hefur hún einnig rutt flóknum hindrunum úr vegi, til dæmis fjárhagslegum, mannlegum og tæknilegum, því með internetinu getur hver sem er, (nánast óháð getu og styrkleikum), komið hvaða upplýsingum sem er á framfæri við nánast hvern sem er, þvert yfir landamæri og óháð tíma og rúmi. Uppákomur á borð við beinar útsendingar í sjónvarpi eru til dæmis ekki lengur háðar ritstjórn, mannskap og fjármagni heldur getur hvaða farsímaeigandi sem er skráð sig inn á samskiptamiðil, opnað sína eigin „sjónvarpsstöð“ og hafið beina útsendingu. Hafi hann/hún/hán vald á ritmáli er hægt að opna bloggsíðu eða skrifa stöðufærslur á samfélagsmiðla, en sé færni í skrifum ekki til að tjalda má alltaf opna hlaðvarp.
Líkt og prenttæknin hafa stafræn samskipti (digital communication) í grundvallaratriðum breytt því hvernig manneskjur miðla upplýsingum og hvernig þær framleiða, deila og varðveita þekkingu. Áhrif tækninnar hafa í kjölfarið orðið merkjanleg á flestum sviðum mannlegrar tilveru enda ná snertifletirnir frá persónulegum málum einstaklinga yfir í samskipti milli þjóða og heimsálfa. Úr buxnavasa upp í himinhvolf. Það liggur því í augum uppi að um afar verðugt félagsvísindalegt, og þá sér í lagi mannfræðilegt rannsóknarefni er að ræða.
Stafræn mannfræði og stafræn etnógrafía
Stafræn mannfræði (digital anthropology), undirgrein mannfræðinnar, kannar með fjölbreyttum hætti hvernig stafræn tækni og stafrænt landslag og rými hafa áhrif á einstaklinga og samfélög (og öfugt). Sviðið (sem er um það bil jafngamalt tækninni) rekur helst rætur sínar til mannfræðinga sem fóru að einbeita sér að efnismenningu og áhrifum tækni á samfélög upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar en meðal helstu brautryðjenda má nefna þau John Postill, Sarah Pink, Daniel Miller, Heather A. Horst, Gabriella Coleman og Illana Gershon. Viðfangsefni þeirra hafa verið fjölbreytt en Coleman varð t.d. þekkt fyrir rannsóknir sínar á Anonymous hópnum meðan Miller hefur helst einbeitt sér að samfélagsmiðlum og áhrifum þeirra.
Í annarri útgáfu bókarinnar Digital Anthropology (2021) skoða ritstjórarnir Heidi Geishmar og Hannah Knox samspil menningar og tækni frá mörgum sjónarhornum og varpa því m.a. fram hvort tímabært sé að endurskoða mennskuna í samhengi við stafræna tækni:
Whilst questions over what it means to be human have been core to the discipline of anthropology, these are inflected in specific ways by digital artefacts that often seem to challenge the conceptual grounds upon which anthropological understandings of humanness are based. Here, cyborg anthropology, the anthropology of robotics and studies of human/machine hybrids explore how anthropology might need to rethink the human in the face of digital developments.
Heidi Geismar, Hannah Knox, Digital Anthropology, bls. 4
Stafræn etnógrafía (digital ethnography) virkar með þeim hætti að hefðbundnum rannsóknaraðferðum í mannfræði, etnógrafíu, er beitt á samfélög sem fyrirfinnast á netinu og stundum utan þess (í samhengi við rannsókn).
Í bókinni Digital Ethnography (2016) tekur mannfræðingurinn Sarah Pink nokkur dæmi um rannsóknarefni og nefnir t.d. þáttakendur í tölvuleikjum, Facebook hópa, samfélagsmiðlanotendur á ólíkum miðlum, netverslun og neytendahegðun, og stafræna sjálfsmynd (digital identity).
Áhrif stafrænnar tækni
Þó ýmsar afurðir stafrænnar tækni og stafrænar lausnir hafi, og geti, vissulega sparað tíma og fyrirhöfn á mörgum sviðum hafa gallarnir oft reynst flóknir og fordæmalausir.
Eðli málsins samkvæmt hafa ókostinir sýnt sig eftir að reynslan er komin á en þetta á sérstaklega við um samfélagsmiðla, útbreiðslu falsfrétta og eftirlit (e. surveillance) með venjulegu fólki.
Shosana Zuboff, prof. emerita frá Harvard háskóla, fjallar ítarlega um eftirlitsmenninguna í bókinni The Age of Surveillance Capitalism- The Fight for a Human Future at the New Frontier of Power sem kom út árið 2019 en í henni útskýrir höfundurinn m.a. hvernig nákvæmar persónuupplýsingar, sem safnað er saman af samfélagsmiðlum o.fl, ganga kaupum og sölum milli stórfyrirtækja og eru notaðar í ólýðræðislegum tilgangi og hvernig notendum er bæði stýrt og stjórnað af þeim sem ráða yfir tækninni.
Reiknirit (algorithm) samfélagsmiðla skapa t.d. efnisveitur sem ríma við núverandi skoðanir notenda en það stuðlar að bergmálshellum sem magna og styrkja fyrirfram ákveðin viðhorf. Þá lyfta þessi reiknirit öfgafullum skoðunum og breiða þær hraðar út en hófstilltar og ígrundaðar vangaveltur sem aftur eykur sundrungu og skautun með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á samfélög.
Reikniritin leggja nefnilega fyrst og fremst áherslu á að fanga athygli notendans og halda honum límdum við tækið (engagement) en taka mjög takmarkað tillit til siðferðilegra þátta eða heilbrigðis notendans.
Hvað varðar rangar upplýsingar (misinformation/disinformation) þá tilgreinir skýrsla World Economic Forum um hnattræna áhættu árið 2025 þær sem mikilvægustu áskorun samfélaga þegar kemur að því að stjórnmálasamheldni og trausti.
Að þessu sögðu er þó líka rétt að tíunda kosti stafrænna miðla því með svipuðum hætti og prenttæknin gerði á sínum tíma hafa þeir gefið ýmsum hópum rödd og auðveldað þeim að vekja athygli á stöðu sinni og málstað. Stofnun og skipulag ólíkra grasrótarhreyfinga varð auðveldara og með tilkomu samfélagsmiðla, t.d. Facebook og Twitter, hafa mörg upplifað valdeflingu í gegn um samstöðu og sýnileika.
Þó hefur það berlega komið í ljós á síðustu mánuðum að þetta vald er langt frá því að vera í hendi því þeir sem eiga miðlana ákveða á endanum hvaða skoðanir fá útbreiðslu og hvað er kæft niður. Allt þetta og meira til má skoða út frá forsendum og nálgunaraðferðum stafrænnar mannfræði.
Framtíðin
Á sama tíma og stjórnvöld víða um heim leita lagalegra leiða til að fyrirbyggja neikvæðar samfélagslegar og heilsufarslegar afleiðingar af notkun stafrænna miðla er enn önnur risa tæknibylting komin í hendur almennings, – gervigreindin.
Hún skýtur nú upp kollinum í ólíklegustu myndum og hefur róttæk áhrif án þess að fólk geri sér grein fyrir þeim og án þess að samhæft, alþjóðlegt eftirlit sé haft með þróun tækninnar.
Handan við hornið bíður svo afsprengi gervigreindarinnar – raddgreiningartækni (advanced speech recognition and voice technologies) en því er spáð að hún muni brjóta niður tungumálahindranir, (til dæmis með þýðingum og umritun í rauntíma) sem mun aftur gerbylta því hvernig fólk á í samskiptum og skiptist á upplýsingum.
Samkvæmt nýjustu áætlunum (GWR, 2024) er talið að markaður fyrir raddgreiningu muni ná 53,67 milljörðum dala árið 2030, með 14,6% árlegum vexti, sem sannar að fjármálaheimurinn veðjar á útbreiðsluna.
Þetta leiðir líkur að því að næstu fimm árin verði það ekki aðeins gervigreindartæknin sem mannkynið mun þurfa að tileinka sér, aðlagast að og beisla heldur mun raddgreiningartæknin gerbylta því hvernig við skiptumst á upplýsingum og eigum í samskiptum.
Hraði tæknibreytinga hefur reynst öflugri en hæfni mannlegra stofnana og samfélaga til að aðlagast þeim. Þetta hefur skapað áskoranir sem við höfum ekki séð áður og ekki sér fyrir endann á en eitt er víst að stafræna mannfræðinga þarf ekki skorta hugðar eða viðfangsefni á komandi árum.
Heimildir:
- Eisenstein, E. L. (1980). The printing press as an agent of change. Cambridge University Press.
- Grand View Research (2024, apríl) Voice And Speech Recognition Market To Reach $53.67 Billion By 2030. https://www.grandviewresearch.com/press-release/global-voice-recognition-industry
- Horst, H. A., og Miller, D. (2012). Digital anthropology. Berg.
- Knox, H., og Geismar, H. (ritstj.). (2021). Digital anthropology (önnur útgáfa.). Routledge, Taylor & Francis Group.
- Latour, B. (2005). Reassembling the social: An introduction to actor-network-theory. Oxford University Press.
- Miller, D. (2010). Stuff. Polity Press.
- Naughton, J. (2016). The evolution of the internet: From military experiment to general purpose technology. Journal of Cyber Policy, 1(1), 5–28. https://doi.org/10.1080/23738871.2016.1157619
- Pink, S., Horst, H., Postill, J., Hjorth, L., Lewis, T., og Tacchi, J. (2016). Digital ethnography: Principles and practice. SAGE Publications.
- World Economic Forum (2025, janúar). Global Risks Report 2025: Conflict, Environment and Disinformation Top Threats. https://www.weforum.org/press/2025/01/global-risks-report-2025-conflict-environment-and-disinformation-top-threats/
- Zuboff, S. (2019). The age of surveillance capitalism: The fight for a human future at the new frontier of power. Public Affairs.
Skildu eftir svar við Svanur Guðmundsson Hætta við svar